Fóstur
Um fóstur er að ræða þegar barnaverndarþjónusta felur fósturforeldrum umsjá barns. Ástæður þess geta hvort sem er verið erfiðleikar barns, að uppeldisaðstæðum þess sé áfátt eða hvoru tveggja. Þær fósturráðstafanir sem um getur verið að ræða eru tímabundið fóstur, varanlegt fóstur eða styrkt fóstur. sjá nánar heimasíðu Barna-og fjölskyldustofu
Tímabundið fóstur
Barni er komið í tímabundið fóstur þegar gert er ráð fyrir því hægt sé að bæta úr því ástandi sem var tilefni fóstursins, innan takmarkaðs tíma, þannig að barnið geti snúið heim að nýju.
Varanlegt fóstur
Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Með varanlegur fóstri er verið að tryggja barni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra.
Styrkt fóstur
Börn eða ungmenni sem eiga við sérstakan hegðunarvanda að stríða vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála þurfa stundum að búa tímabundið á fósturheimili sem getur boðið uppá markvissan stuðning. Með styrktu fóstri er átt við sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Þessi ráðstöfun gerir ráð fyrir því að annað fósturforeldra a.m.k. sé í fullu starfi við að sinna því verkefni.