Barnavernd

Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun. Einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs. Þau njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni. Þeim ber jafnframt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Aðrir aðilar sem koma að uppeldi barna skulu sýna þeim virðingu og umhyggju.

Barnaverndarþjónusta Árnesþings starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Unnið er að því að ná þessum markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Sveitarfélög bera ábyrgð á barnavernd skv. barnaverndarlögum og skulu starfrækja barnaverndarþjónustu sem ber ábyrgð á verkefnum og ákvörðunum samkvæmt barnaverndarlögum sem ekki eru sérstaklega falin öðrum, þ.m.t. umdæmisráði barnaverndar, dómstólum eða öðrum stjórnvöldum.

Fyllsta trúnaðar er gætt við vinnslu barnaverndarmála.

Barnaverndartilkynning

Samkvæmt barnaverndarlögum ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum í því sveitarfélagi sem barnið býr. Starfsmenn barnaverndarþjónustu Árnesþings taka við barnaverndartilkynningum á skrifstofutíma í síma 480-1180. Einstaklingar geta líka sent inn tilkynningu í gegnum tilkynningarhnapp sem er hér efst á síðunni (tilkynning til barnaverndar). Komi upp neyðartilvik eftir að skrifstofu hefur verið lokað, getur þú hringt í 112 og sagt frá áhyggjum þínum, þá metur neyðarvörður hjá 112 hvort nauðsynlegt er að gefa samband til við vakthafandi bakvakt eða gera skýrslu og senda á barnavernd. Netfang hjá barnaverndarþjónustu Árnesþings er barnavernd@arnesthing.is 

Hvað ber að tilkynna

Það er nóg að hafa grun um að barn sé í vanda eða erfiðum aðstæðum, þín tilkynning getur skipt sköpum.

Þú getur horft til ýmissa þátta sem hjálpa þér að meta stöðuna. Ef grunur þinn snýr að eftirfarandi þáttum skalt þú ekki hika við að tilkynna til Barnaverndar:

  • kamleg og tilfinningaleg vanræksla
  • Líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi og misnotkun
  • Ung börn skilin eftir gæslulaus eða í umsjá annarra barna
  • Eldri börn skilin eftir gæslulaus langtímum saman og þurfa að sjá um sig sjálf
  • Léleg skólasókn, skólaskyldu ekki sinnt
  • Afbrot, árásargirni
  • Heilsugæslu eða læknisaðstoð ekki sinnt þrátt fyrir þörf á því
  • Endurtekin slys og óhöpp sem hægt hefði verið að fyrirbyggja
  • Endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra
  • Vannæring
  • Lélegur fatnaður og umhirða sem samræmist ekki aðstæðum
  • Óeðlileg útivist og endurtekin brot á útivistarreglum
  • Áfengis- eða vímuefnaneysla foreldra
  • Almennt vanhæfi foreldra

 

Þarf ég að gefa upp nafn mitt

 Samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001 verður hver sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar að segja á sér deili. þannig að þú þarft að gefa upp nafn þegar þú tilkynnir svo Barnavernd geti haft samband ef þörf krefur.

En um leið getur þú óskað nafnleyndar þannig að sá sem þú tilkynnir fái ekki upplýsingar um þig.Tilkynnandi getur óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en nefndinni og skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Könnun barnaverndarmála

Þegar barnaverndarþjónusta fær barnaverndartilkynningu skal hún taka ákvörðun innan sjö daga frá því henni barst tilkynning, um hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu.

Sú ákvörðun er tekin á vikulegum teymisfundum nema tilefni sé talið til þess að bregðast við án tafar.

Ákvörðun barnaverndarþjónustu um að hefja könnun máls eða að láta mál niður falla er hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds. Tilkynna skal foreldrum að tilkynning hafi borist. Undantekning á þessu verklagi er þegar barn er talið í hættu í umsjá foreldra og/eða þegar það er talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldrar viti tímabundið ekki af könnuninni.

Markmið könnunar er að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Við könnun máls skal leggja áherslu á að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, andlegt og líkamlegt ástand, tengsl við foreldra og aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Þetta gera starfsmenn með viðtali við forsjáraðila, með því að biðja um umsögn um stöðu barns frá leikskóla eða skóla, með því að fá upplýsingar frá ættingjum eða vinum sem þekkja barnið, með heimsókn á heimili, með viðtali við barn og upplýsingum frá sérfræðingum sem hafa komið að málefnum barnsins.

Rétt er að taka fram að þessara upplýsinga er aflað með vitneskju foreldra nema sérstakar ástæður þyki til.

Þegar könnun máls er lokið skal barnaverndarþjónustan taka saman niðurstöður könnunar í greinagerð þar sem skilgreint er hvaða vandi er til staðar og hvort talin sé ástæða til að gera meðferðaráætlun í máli barnsins þar sem kveðið er á um stuðningsúrræði eða hvort málinu sé lokið af hálfu barnaverndar.

Sjá nánar: reglur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings um meðferð barnaverndarmála.

 Áætlun um meðferð barnaverndarmáls

Ef könnun á máli barns leiðir í ljós að þörf er á úrbótum skal barnaverndarþjónusta í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem hefur náð 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um meðferð málsins. Haft er samráð við yngri börn eftir þroska þeirra og aldri. Áætlun er gerð til ákveðins tíma og er endurskoðuð eftir þörfum.