Eldri stefnumörkun

Sameiginleg markmið skólanna

Vorið 2014 settu skólar og skólaþjónusta í Árnesþingi sér markmið í skólamálum fram til ársins 2017. Markmiðin voru unnin í samvinnu við sveitarstjórnarfólk á svæðinu auk þess sem starfshópur skólastjórnenda og starfsmanna skólaþjónustu vann að útfærslu markmiðanna. Ákveðið var að á hverju vori myndi skólaþjónusta senda út rafræna könnun til skólastjórnenda til þess að kanna hvaða skref hafi verið stigin í skólastarfinu til þess að vinna að framgöngu markmiðanna.

Sjá niðurstöður úr könnun á framgöngu sameiginlegra markmiða skóla og
skólaþjónustu 2014 - 2017


Frá og með 1. mars 2023 mun eftirfarandi sveitafélög standa að Skóla og velferðarþjónustu Árnesþings: Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur.

Skólar í þessum sveitarfélögum eru:

  • Álfaborg
  • Bláskógaskóli
  • Flóaskóli
  • Flúðaskóli
  • Kerhólsskóli
  • Krakkaborg
  • Leikholt
  • Óskaland
  • Undraland, Flúðum
  • Þjórsárskóli

Inngangur

Markmiðin sem hér eru sett fram eru afrakstur hugarflugsfundar sem haldinn var í Þingborg, Flóahreppi 12. febrúar 2014. Þar unnu skólastjórnendur, sveitastjórnarmenn og starfsmenn skólaþjónustu Árnesþings að því að móta skýr sameiginleg markmið í skólamálum fram til ársins 2017. Í framhaldinu var skipaður vinnuhópur sem vann nánar að gerð markmiðanna. Í honum sátu Ásgerður Eiríksdóttir leikskólastjóri Bergheima, Sævar Helgason deildarstjóri í Grunnskólanum í Hveragerði, Sigmar Ólafsson skólastjóri Kerhólsskóla, Júlíana Tyrfingsdóttir leikskólastjóri Álfaborgar, Hörður Guðmundsson fulltrúi skóla- og velferðarnefndar, Gerður G. Óskarsdóttir ráðgjafi, Hrafnhildur Karlsdóttir kennsluráðgjafi og Ólína Þorleifsdóttir kennsluráðgjafi.

Unnið verður að markmiðunum frá hausti 2014 til loka ársins 2017. Verkefnið verður reglulega metið og farið yfir framvindu þess, til dæmis með rafrænum könnunum skólaþjónustu, viðtölum og vettvangsathugunum. Skólastjórnendur, skólaþjónusta og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til þess að leggja áherslu á markmiðin í skólastarfinu næstu árin. Markmiðin ættu að verða skólasamfélaginu á svæðinu sameiningarafl og stuðla að sameiginlegu, markvissu og stefnuföstu þróunarstarfi allra skólanna.


JÁKVÆÐ SJÁLFSMYND, VELLÍÐAN OG HEILBRIGÐI

Árið 2017 hefur eftirfarandi markmiði verið náð: Sjálfsmynd nemenda og félagsþroski hefur styrkst með markvissum aðgerðum og forvarnastarfi.

Skilgreining: Uppbygging og forvarnastarf sem tekur mið af að vellíðan, andleg og líkamleg sé forsenda fyrir öllu námi.

Leiðir: Skólar setji sér stefnu um samskipti í skólanum og heilsueflingu t.d. ART, Olweus, Uppeldi til ábyrgðar og/eða aðrar sambærilegar stefnur.

Ábyrgð skólaþjónustu: Halda námskeið, til dæmis um jákvæða sjálfsmynd, félagsfærni og líðan fyrir kennara, nemendur og foreldra. Styrkja skóla í því að skapa jákvæðan skólabrag. Leggja skimanir fyrir nemendur um líðan og heilsueflandi þætti í samvinnu við skólana.

Ábyrgð stjórnenda: Hafa forystu um jákvæðan skólabrag og bregðast við neikvæðum samskiptum í skólanum. Sjá til þess að allir nemendur eigi kost á að stunda hreyfingu og útiveru.

Ábyrgð foreldra: Styðja við skólana í heilsueflandi aðgerðum, til dæmis varðandi nesti, hreyfingu nemenda og svefn.

Ábyrgð sveitarfélaganna: Stuðla að jákvæðum anda í grenndarsamfélaginu gagnvart skólunum. Sjá til þess að nemendum standi til boða hollur matur og aðstaða til hreyfingar.

Mat: Á vegum skólaþjónustu er árlega að vori lögð rafræn könnun fyrir skólastjórnendur um skref sem stigin hafa verið á skólaárinu (kortlagning). Rafræn könnun um líðan og einelti er lögð fyrir nemendur í 5. bekk grunnskóla í upphafi tímabilsins, um miðbik þess og við lok þess. Tilfallandi skimanir skólasálfræðings.


SAMFELLA MILLI SKÓLASTIGA

Árið 2017 hefur eftirfarandi markmiði verið náð: Samfella er í námi nemenda frá leikskóla til grunnskóla og grunnskóla til framhaldsskóla.

Skilgreining: Á skilum leik- og grunnskóla er átt við að kennarar þekki til starfshátta og inntaks náms á hvoru skólastigi og taki mið af því við skipulag skólastarfsins. Í grunnskóla er byggt á þeim grunni sem barn ber með sér frá leikskóla og reynt að forðast óþarfa endurtekningu í náminu og í leikskóla er meðvitund um það sem koma skal í grunnskóla. Sama á við um skil milli grunn- og framhaldsskóla.

Leiðir: Kennaraheimsóknir milli skólastiganna og kennarar af báðum skólastigum vinni saman að skólanámskrám fyrir elstu börnin í leikskóla og 1. bekk grunnskóla.

Ábyrgð skólaþjónustu: Koma á faglegri umræðu milli kennara mismunandi skólastiga, meðal annars í formi símenntunar og funda milli kennara um samfellu í námi. Aðstoða við kynningafundi og foreldranámskeið. Skipuleggja reglubundið mat.

Ábyrgð skólastjórnenda: Skipuleggja heimsóknir kennara milli skólastiga þar sem kennarar fylgjast með og taka þátt í kennslu. Gera ráð fyrir samstarfi við gerð skóladagatala/starfsáætlana, jafnt og skilafunda (maí). Ennfremur að hafa samvinnu hvað varðar heimsóknir og fagfundi (ágúst/september og janúar/febrúar), svo og skólanámskrár. Tryggja að gögn sem fylgja nemendum séu nýtt við skipulag starfsins, svo sem niðurstöður úr HLJÓM-2, TRAS og fleiru. Skipuleggja kynningafundi fyrir foreldra og foreldranámskeið.

Ábyrgð foreldra: Taka þátt í kynningafundum, heimsóknum í skóla og foreldranámskeiðum.

Ábyrgð sveitarfélaganna: Tryggja starfstíma í skólunum til þess að sinna þessu verkefni. Stuðla að jákvæðni grenndarsamfélags gagnvart markmiðinu.

Mat: Á vegum skólaþjónustu er á hverju vori lögð rafræn könnun fyrir skólastjórnendur um skref sem stigin hafa verið á skólaárinu.


LESTUR

Árið 2017 hefur eftirfarandi markmiði verið náð: Formlegt lestrarnám hefst í leikskóla og byggt er ofan á það í grunnskóla. Meginþorri barna þekkir bókstafina og hljóð þeirra við lok leikskóla.

Á tímabilinu hafi meðaltal skólanna í lesskilningi á samræmdum prófum í 4. og 7. bekk hækkað um að minnsta kosti 5% og meðaltal á HLJÓM–2 hækkað um að minnsta kosti 5%.

Skilgreining: Lestur er undirstaða náms og virkni í samfélaginu.

Leiðir: Gert verði sérstakt átak í lestri á öllum stigum lestrarnámsins frá leikskóla til grunnskóla. Aukið samstarf kennara milli skólastiga varðandi lestrarkennslu og nám.

Ábyrgð skólaþjónustu: Standa fyrir námskeiðum um lestrarnám í leik– og grunnskólum. Styðja skólana varðandi lestrarstefnu. Taka saman gögn og halda utan um upplýsingar um þróun í lestri á svæðinu og miðla þeim.

Ábyrgð skólastjórnenda: Hafa forystu um formlega lestrarstefnu skólans, svo sem um yndislestur, snemmtæka íhlutun, sér- og stuðningskennslu, kennsluaðferðir og samfellu í lestrarnámi milli leik- og grunnskóla.

Ábyrgð foreldra: Styðja við lestrarnámið heima með því að þjálfa börnin í lestri og lesa fyrir þau.

Ábyrgð sveitarfélaganna: Gera lestrarátakið sýnilegt í grenndarsamfélaginu, m.a. með hvatningu til bóklesturs á bókasöfnum og styðja við símenntun á þessu sviði.

Mat: Niðurstöður um lesskilning á samræmdum prófum í 4. og 7. bekk, úr „Leið til læsis“ í 1. bekk og HLJÓM-2 í leikskólum.


EINSTAKLINGSMIÐAÐ NÁM OG NÝTING TÖLVUTÆKNI

Árið 2017 hefur eftirfarandi markmiði verið náð: Stigin hafa verið markviss skref í átt til einstaklingsmiðaðs náms og samvinnu nemenda í öllum skólunum og upplýsingatæknin samþætt öllu námi.

Skilgreining: Með einstaklingsmiðuðu námi er leitast við að haga námi og kennslu í sem fyllstu samræmi við stöðu nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Nemendur fást við ólík viðfangsefni eftir stöðu og áhuga í náminu, hafa áhrif á nám sitt og eiga valmöguleika.

Leiðir: Samkennsla árganga, teymisvinna kennara, útikennsla, samvinna nemenda, nám í samræmi við stöðu, styrkleika og áhugasvið nemenda, innleiðing vinnu með einstaklingsáætlanir og tengsl við grenndarsamfélagið. Nýting kennsluforrita, Internetsins og spjaldtölva í námi.

Ábyrgð skólaþjónustu: Leiða saman kennara mismunandi kennslugreina til að ræða markmið og leiðir sem gefist hafa vel. Skipuleggja námskeið um einstaklingsmiðað nám og nýtingu tölvutækni. Skipuleggja sameiginlega starfsdaga skólanna.

Ábyrgð skólastjórnenda: Hafa forystu um að á hverju skólaári séu stigin skref í átt að einstaklingsmiðuðu námi.

Ábyrgð foreldra: Taka þátt í gerð einstaklingsáætlunar barns síns og mati á framförum þess.

Ábyrgð sveitarfélaganna: Tryggja nettengingar og tækjakost sem þarf til þess að uppfylla markmið og styðja við símenntun á sviði kennsluhátta.

Mat: Á vegum skólaþjónustu er á hverju vori lögð rafræn könnun fyrir skólastjórnendur um skref sem stigin hafa verið á skólaárinu.