Málstjóri farældar

Málstjóri í þjónustu í þágu farsældar barna

Ef fyrir liggur beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu og ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma skal sveitarfélag þar sem barn á lögheimili tilnefna málstjóra þjónustu í þágu farsældar barnsins. Sveitarfélag skal velja málstjóra sem starfar við félagsþjónustu sveitarfélagsins eða á þeim sviðum þar sem þarfir barns liggja. Málstjóri skal hafa þekkingu á þjónustu í þágu farsældar barna.

Málstjóri farsældar er:

  • Starfsmaður sem starfar við félagsþjónustu sveitarfélagsins eða þar sem þarfir barns liggja
  • Sá sem stýrir stuðningsteymi í 2. og 3. stigs þjónustu í þágu farsældar barna
  • Sá sem styður fjölskyldur við samþættingu þjónustu á 2. og 3. stigi
  • Aðili sem hefur hagsmuni barns að leiðarljósi og er í samstarfi og samráði við foreldra og barn.

Hlutverk málstjóra farsældar er að:

  • Veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
  • Aðstoða við að tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns.
  • Bera ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og að stýra stuðningsteymi.
  • Fylgja því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.
  • Veita þeim sem sitja í stuðningsteymi ráðgjöf og upplýsingar um samþættingu þjónustu barns.

Áður en málstjóri byrjar að veita þjónustu skv. 1. mgr. skal liggja fyrir beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu. Þegar beiðni liggur fyrir getur málstjóri aflað upplýsinga um aðstæður barns frá þjónustuveitendum og þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns.

Stuðningsteymi og stuðngsáætlun

  • Málstjóri skal stofna stuðningsteymi þar sem sitja fulltrúar þjónustuveitenda sem veita barni þjónustu. Heimilt er að bjóða þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns að taka sæti í stuðningsteymi ef þörf krefur.
  • Stuðningsteymi skal hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
  • Stuðningsteymi skal svo fljótt sem verða má gera skriflega stuðningsáætlun fyrir barnið þar sem þjónusta sem er veitt í þágu farsældar barnsins er samþætt. Í stuðningsáætlun skal eftir atvikum geta um:

1. Mat og/eða greiningu á þörfum barns.
2. Markmið með þjónustu og samþættingu einstakra þátta hennar á öllum þjónustustigum.
3. Hlutverk hvers þjónustuveitanda og annarra eftir atvikum.
4. Hvernig árangur verði metinn.
5. Tímabil sem áætlun er ætlað að vara

  • Stuðningsteymi hefur reglubundna samvinnu um framkvæmd stuðningsáætlunar þann tíma sem áætlun varir. Hana ber að endurmeta og endurnýja eftir því sem þörf krefur. Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.