Loka valmynd

Námskeið og fræðslufundir, haustönn 2019

Námskeið og fræðslufundir, haustönn 2019

Að byrja í grunnskóla Skólafærninámskeið

Tímasetning er val hvers skóla fyrir sig lengd námskeiðs 1 klst

Námskeiðið er ætlað foreldrum barna í 1. bekk/ yngsta stigi, umsjónarkennurum þeirra, öðru starfsfólki og skólastjórnendum.

Umsjón hafa, Kolbrún Sigþórsdóttir og Hrafnhildur Karlsdóttir kennsluráðgjafar, Álfhildur Þorsteinsdóttir og Anna Stefanía Vignisdóttir talmeinafræðingar.

Fjallað um ábyrgðarhlutverk foreldra gagnvart skólagöngu barnsins og mikilvægi góðs samstarfs skóla og heimilis. Fjallað verður m.a. um félagstengsl og mikilvægi þess að kennarar og foreldrar hlúi að vináttutengslum nemenda. Talmeinafræðingur fjallar um lestur og lestrartileinkun. Þá verður foreldrasáttmáli Heimilis og skóla kynntur og mælt með að kennarar og foreldrahópurinn sammælist um reglur sem gildi í bekknum t.d. varðandi útivistartíma, afmælisboð o.fl.

Ekkert þátttökugjald

Fræðslufundur fyrir starfsfólk af erlendum uppruna í leikskóla

Fimmtudagur 5. september kl. 14:00 - 16:00 Ráðhús Árborgar Austurvegi 2, Fundurinn hefur verið auglýstur sérstaklega í leikskólum á þremur tungumálum

Umsjónarmenn eru Lieselot Simoen leikskólastjóri í Álfaborg, Aneta Figlarska og Guðný I. Rúnarsdóttir ráðgjafar í Skólaþjónustu Árborgar, Kolbrún Sigþórsdóttir og Hrafnhildur Karlsdóttir kennsluráðgjafar í Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings

Tilgangur fundarins er að starfsfólk af erlendum uppruna fái tækifæri til að fræðast um leikskólastarf og helstu áherslur í íslenskum leikskólum. Meðal annars verður fjallað um helstu verkefni starfsfólks, um lagaumhverfið, leik barna og mikilvægi hans og helstu leiðir til að mæta hegðunarerfiðleikum barna. Síðan verður gefinn góður tími til umræðna. Fundurinn fer fram á íslensku, ensku og pólsku.

Ekkert þátttökugjald

Skráning hér

Heimsókn læsisfræðinga Menntamálastofnunar

Miðvikudagur 2. október Kl. 13:30 – 15:30 Kerhólsskóli

Umsjón Katrín Ósk Þráinsdóttir og Guðbjörg Rut Þórisdóttir sérfræðingar frá Menntamálastofnun

Fjallað verður um matstæki Lesferils og hvernig þau geta nýst til að bæta læsi nemenda. Farið verður yfir fyrirlagnatöflu vegna lesfimimats, stuðningsprófa og stafakönnunar, greiningu niðurstaðna, til hvaða aðgerða þarf að grípa og gögn sem nýtast til þess. Kennarar eru hvattir til að mæta með þær spurningar sem brenna á þeim varðandi Lesferil og annað sem getur gert lestrarkennslu enn betri.

Ekkert þátttökugjald

Skráning hér

Tímastjórnun fyrir stjórnendur í leik- og grunnskólum

Mánudagur 7. október Kl. 13:00-16:00 Leikholt,Brautarholti

Umsjón Ingrid Kuhlman þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun

Á námskeiðinu fá þátttakendur innsýn í hvernig þeir verja tíma sínum í dag og læra að forgangsraða verkefnum. Farið er í mikilvægi þess að skapa tíma fyrir mikilvægustu verkefnin með góðri skipulagningu og takast á við truflanir af ýmsum toga, eins og símtöl og tölvupóstinn. Tekin eru fyrir atriði eins og algengir tímaþjófar, frestun, skipulagning og áætlanagerð, fundir og fundarstjórn, að segja nei, jákvætt hugarfar og sjálfsstjórn. Námskeiðið hentar öllum þeim sem vilja læra aðferðir til að stjórna tíma sínum og sjálfum sér betur.

Þátttökugjald kr. 6.800.-

Skráning hér

Læsisfimman

Ný leið í þróun læsis í skóla margbreytileikans

Miðvikudagur 23. október Kl. 13:30 – 15:30 Grunnskólinn í Hveragerði

Umsjón Ólöf Kristín Knappett Ásgeirsdóttir umsjónarkennari

Um er ræða rannsóknarstudd viðfangsefni sem efla færni, þekkingu og leikni nemenda í læsi. Kennt er hvernig hægt er að byggja upp vinnuúthald, auka fjölbreytni í námsvali og auka sjálfstæði nemenda. Þannig getur kennarinn betur mætt þörfum hvers nemanda. Auk þess fylgja læsisfimmunni ákveðnar hegðunarvæntingar sem hjálpa nemendum að halda sig betur að verki og nýta tíma sinn vel. Farið verður inn í skólastofu þar sem sjá má uppsetningu sem styður við þessa kennsluhætti.

Ekkert þátttökugjald

Skráning hér

Tákn með tali fyrir starfsfólk í leik- og grunnskólum

Miðvikudagur 30. október kl. 13:30 - 15:30 Leikskólinn Álfaborg Bláskógabyggð

Umsjón Hrafnhildur Karlsdóttir teymisstjóri og kennsluráðgjafi og Anna Stefanía Vignisdóttir talmeinafræðingur, Skóla og velferðarþjónustu Árnesþings.

Markmið námskeiðsins að starfsfólk leik- og grunnskóla fái tækifæri til að nota TMT í starfi sínu með börnum. TMT er einföld en öflug boðskiptaleið sem getur skipt miklu máli í þróun málþroska barna og þar með alla þroskaframvindu. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að TMT er öflug leið til að hjálpa börnum að skilja og læra ný orð. Þá sýna rannsóknir að með því að kenna börnum að nota TMT, geta þau snemma tjáð tilfinningar sínar og líðan sem um leið byggir upp sjálfstraust, dregur úr vanlíðan og fækka árekstrum. TMT er góð viðbót við almenna málörvun á deild, í orðaforðakennslu í grunnskóla og í vinnu með nemendum sem skilja/tala litla íslensku.

Ekkert þátttökugjald

Skráning hér

Stærðfræðiþrennan

Fimmtudagur 7. nóvember Kl. 13:30 – 15:30 Grunnskólinn í Hveragerði

Umsjón Ólöf Kristín Knappett Ásgeirsdóttir umsjónarkennari

Um er ræða rannsóknarstudd viðfangsefni sem efla færni, þekkingu og leikni nemenda í stærðfræði. Kennt er hvernig hægt er að byggja upp vinnuúthald, auka fjölbreytni í námsvali og auka sjálfstæði nemenda. Þannig getur kennarinn betur mætt þörfum hvers nemanda. Auk þess fylgja tærðfræðiþrennunni ákveðnar hegðunarvæntingar sem hjálpa nemendum að halda sig betur að verki og nýta tíma sinn vel. Farið verður inn í skólastofu þar sem sjá má uppsetningu sem styður við þessa kennsluhætti.

Ekkert þátttökugjald

Skráning hér

Samráðsfundur deildarstjóra í leikskólum

Miðvikudagur 13. nóvember kl. 13:30-15:30 Fundarsalur í Þingborg félagsheimili

Umsjón hefur Hrafnhildur Karlsdóttir teymisstjóri og kennsluráðgjafi

Meðal annars verður rætt um mikilvægi öflugrar liðsheildar á deildinni og hvernig má efla og viðhalda góðri liðsheild. Þá verður fjallað um ábyrgð og leiðbeiningu deildarstjóra o.fl. Gefinn verður góður tími til umræðna. Deildarstjórar geta sent inn ábendingu varðandi umfjöllunarefni á fundinum á netfangið hrafnhildur@arnesthing.is

Ekkert þátttökugjald

Skráning hér